Jóhann klár gegn Úlfunum

Jóhann Berg Guðmundsson á HM í Rússlandi.
Jóhann Berg Guðmundsson á HM í Rússlandi. mbl.is/Eggert

Sean Dyche, knattspyrnustjóri Burnley, flutti góðar fréttir af íslenska landsliðsmanninum Jóhanni Berg Guðmundssyni á fréttamannafundi í dag.

Jóhann meiddist í læri í leik gegn Fulham 26. ágúst og missti af tveimur leikjum með Burnley auk landsleikjanna gegn Sviss og Belgíu. Hann er hins vegar klár í slaginn gegn Wolves í hádeginu á sunnudag:

„Jóhann er tilbúinn, svo það er gott,“ sagði Dyche þegar hann fór yfir stöðu leikmanna í Burnley-liðinu, en Jóhann hefur verið fastamaður í byrjunarliði liðsins og leikið stórt hlutverk.

Þar með hafa borist góðar fréttir af þremur byrjunarliðsmönnum úr íslenska landsliðinu í dag sem allir misstu af leikjunum við Sviss og Belgíu. Alfreð er farinn að æfa með bolta og ætti að geta byrjað að æfa með liði Augsburg í þessum mánuði, og Aron Einar Gunnarsson gæti spilað um helgina þó að líklegra sé að hann fái meiri tíma til að byggja upp hnéð eftir meiðsli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert