Myndi ekki selja De Bruyne á 200 milljónir

Kevin De Bruyne lék ekki gegn Íslandi vegna meiðsla.
Kevin De Bruyne lék ekki gegn Íslandi vegna meiðsla. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, myndi ekki selja belgíska miðjumanninn Kevin De Bruyne, þótt félagið fengi 200 milljóna punda tilboð fyrir þjónustu hans. 

„Ég myndi ekki selja hann fyrir 250 milljónir, það er mitt álit. Það eru ekki klásúlur í samningum leikmanna á Englandi svo félög þurfa að ræða kaupverð sín á milli,“ sagði Guardiola á fréttamannafundi í dag. 

De Bruyne var valinn leikmaður ársins hjá City á síðustu leiktíð er liðið vann ensku úrvalsdeildina með miklum yfirburðum. Hann komst svo alla leið í undanúrslit á HM í Rússlandi með belgíska landsliðinu, sem að lokum vann bronsverðlaun.

Leikmaðurinn er hins vegar að glíma við meiðsli sem stendur og lék hann ekki með landsliðinu gegn Íslandi síðasta þriðjudag. „Hann verður ekki með á móti Fulham á morgun en þetta lítur ágætlega út. Læknirinn sagði að batinn gengi vel. Vonandi verður hann klár eftir tvo og hálfan mánuð,“ sagði spænski stjórinn. 

mbl.is