Sarri opinn fyrir því að fá Terry

John Terry átti magnaðan feril sem leikmaður Chelsea.
John Terry átti magnaðan feril sem leikmaður Chelsea. AFP

Chelsea-goðsögnin John Terry er án félags eftir að hafa hafnað tilboði frá rússneska knattspyrnufélaginu Spartak Moskvu.

Terry lék með Aston Villa á síðustu leiktíð en er nú samningslaus. Honum bauðst að fara til Rússlands en hætti að lokum við það eftir að hafa farið yfir málið með fjölskyldu sinni.

Maurizio Sarri, sem tók við sem knattspyrnustjóri Chelsea í sumar, var spurður á fréttamannafundi í dag hvort til greina kæmi að ráða Terry í þjálfarateymi félagsins:

„Síðast þegar ég ræddi við hann sagðist hann vilja spila eina leiktíð í viðbót. En ég þekki ekki stöðuna núna, þetta var fyrir viku. Chelsea er auðvitað hans heimili,“ sagði Sarri. En væri Terry velkominn?

„Auðvitað. Hann myndi setja gott viðmið fyrir mig og alla aðra hérna. Ég veit ekki annað en að hann sagðist vilja spila svo ég veit ekki. Ég þarf að ræða við hann. Þetta er í hans höndum því ef hann vill spila eina leiktíð í viðbót tel ég að það sé rétt hjá honum. Ef hann vill hjálpa okkur þá myndi það gleðja mig mjög mikið,“ sagði Sarri.

mbl.is