Jóhann Berg sneri aftur en vandræðin aukast

Jóhann Berg Guðmundsson er niðurlútur á meðan Raul Jimenez fagnar ...
Jóhann Berg Guðmundsson er niðurlútur á meðan Raul Jimenez fagnar sigurmarki sínu fyrir Wolves. AFP

Jóhann Berg Guðmundsson sneri aftur í lið Burnley eftir meiðsli en mátti sætta sig við tap fyrir nýliðum Wolves, 1:0, þegar liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Burnley er enn í leit að sínum fyrsta sigri.

Úlfarnir höfðu gríðarlega yfirburði í fyrri hálfleik og létu skotum hreinlega rigna að marki Burnley. Joe Hart varði hins vegar mörgum sinnum virkilega vel á milli stanganna og hélt Jóhanni Berg og félögum sannarlega inni í leiknum. Markalaust í hálfleik.

Úlfarnir héldu áfram að vera sterkari aðilinn eftir hlé og stífur sóknarþungi þeirra skilaði loks marki á 61. mínútu. Raúl Jiménez skoraði þá með viðstöðulausu skoti í teignum eftir sendingu Matt Doherty eftir laglega sókn upp hægri vænginn.

Burnley reyndi að finna jöfnunarmark en allt kom fyrir ekki og Úlfarnir fögnuðu 1:0 sigri. Þeir eru með átta stig eftir fimm leiki í efri hluta deildarinnar en Jóhann Berg og félagar leita enn að fyrsta sigri sínum og eru með eitt stig.

Jóhann Berg spilaði allan leikinn fyrir Burnley sem er mjög gleðilegt fyrir hann og íslenska landsliðið eftir að hann var fjarri góðu gamni í leikjunum tveimur gegn Sviss og Belgíu í Þjóðadeildinni á dögunum.

Wolves 1:0 Burnley opna loka
90. mín. Leik lokið Sanngjarn sigur hjá Úlfunum.
mbl.is