Sá besti í deildinni að mati Carragher

Jamie Carragher.
Jamie Carragher. AFP

Sparkspekingurinn Jamie Carragher, fyrrverandi fyrirliði Liverpool, hefur tjáð sína skoðun á því hver sé besti leikmaðurinn í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Að mati Carraghers er Belginn Edin Hazard, leikmaður Chelsea, besti leikmaðurinn í deildinni og segir hann að Hazard hafi átt skilið að fá gullboltann eftir HM í Rússlandi í sumar.

„Ég held að Hazard sé besti leikmaðurinn í úrvalsdeildinni. Kevin De Bruyne og Mohamed Salah voru bestu leikmennirnir á síðustu leiktíð en ég er að tala um fjögurra til fimm ára tímabil þegar ég hugsa um það hver sé bestur. Hazard er frábær og mér fannst hann besti leikmaðurinn á HM og hefði átt að vera valinn besti leikmaður keppninnar,“ segir Carragher í viðtali við Sky Sports.

Hazard hefur farið afar vel af stað með Chelsea á leiktíðinni en hann hefur skorað fimm mörk í fyrstu fimm leikjum liðsins í deildinni þar sem Chelsea hefur fullt hús stiga eins og Liverpool.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert