Salah stefnir hátt

Mohamed Salah og Virgil van Dijk verða í eldlínunni gegn …
Mohamed Salah og Virgil van Dijk verða í eldlínunni gegn Paris SG á Anfield í kvöld. AFP

Egyptinn Mohamed Salah telur að Liverpool geti unnið bæði Englandsmeistaratitilinn og Evrópumeistaratitilinn á þessari leiktíð en „rauði herinn“ hefur svo sannarlega byrjað tímabilið vel.

Liverpool hefur unnið alla fimm leiki sína í ensku úrvalsdeildinni og í kvöld hefur liðið keppni í Meistaradeildinni þegar það tekur á móti frönsku meisturunum í Paris SG, sem skartar leikmönnum á borð við Neymar, Kylian Mbappe og Edison Cavani.

„Ég trúi því að við getum unnið bæði deildina og Meistaradeildina. Ég vil ekki að við setjum pressu á okkur sjálfa en jú allt er mögulegt,“ segir Salah, sem fór á kostum á síðustu leiktíð en Egyptinn skoraði 44 mörk á tímabilinu og var útnefndur leikmaður ársins af leikmönnum og blaðamönnum.

Liverpool tapaði fyrir Real Madrid í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð og hafnaði í 4. sæti í deildinni en margir sparkspekingar hafa spáð því að Liverpool hafi lið til að vinna Englandsmeistaratitilinn sem það hefur ekki unnið frá því árið 1990.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert