Leikmenn Tottenham í sárum

Tottenham hefur nú tapað þremur leikjum í röð í öllum …
Tottenham hefur nú tapað þremur leikjum í röð í öllum keppnum. AFP

Enska knattspyrnufélaginu Tottenham hefur ekki gengið vel í undanförnum leikjum sínum og hefur nú tapað þremur leikjum í röð í öllum keppnum. Þetta er í fyrsta sinn sem liðið tapar þremur leikjum í röð síðan Mauricio Pochettino tók við stjórnartaumunum hjá félaginu, fyrir fjórum árum.

Liðið tapaði 2:1 fyrir bæði Watford og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni og þá beið liðið ósigur gegn Inter Mílanó í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu á þriðjudaginn síðasta. Pochettino segir að leikmenn liðsins hafi tekið ósigrana mikið inn á sig. „Að tapa þremur leikjum í röð er slæmt fyrir alla. Mörkin sem við höfum verið að fá á okkur hafa líka verið ódýr og það er erfitt.“

„Leikmenn liðsins eru í sárum yfir gengi liðsins en ég er sannfærður um að við komumst aftur á sigurbraut sem fyrst. Stundum er jákvætt að tapa leikjum, þú lærir mest á því. Við þurfum núna að reyna að rífa okkur aftur í gang og halda áfram. Fótbolti er ekki mjög frábrugðinn lífinu sjálfu, það skiptast á skin og skúrir í þessu,“ sagði argentínski knattspyrnustjórinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert