„Hann var hinn fullkomni leikmaður“

Paul Scholes lagði knattspyrnuskóna á hilluna árið 2013.
Paul Scholes lagði knattspyrnuskóna á hilluna árið 2013. AFP

Sir Alex Ferguson, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United á Englandi, er nú að jafna sig eftir heilablóðfall en hann hrósaði Paul Scholes, fyrrverandi miðjumanni liðsins, í hástert á góðgerðarkvöldverði sem haldinn var til heiðurs leikmanninum í gær.

Scholes spilaði allan sinn atvinnumannaferil með Manchester United og  vann ensku úrvalsdeildina ellefu sinnum, þá vann hann ensku bikarkeppnina í þrígang og Meistaradeild Evrópu í tvígang. 

„Fyrst þegar hann kom til okkar, þá 13 ára gamall, var hann afar lágvaxinn miðað við aldur. Við héldum að þetta myndi há honum á seinni árum hans en annað kom á daginn. Hann blómstraði og allir knattspyrnuáhugamenn vita hvað hann getur í dag. Hann átti ótrúlegan feril og gerði frábæra hluti fyrir Manchester United.“

„Hann var hinn fullkomni leikmaður og sama hversu margir frábærir leikmenn hafa spilað fyrir félagið þá verður Scholes alltaf á meðal þeirra allra bestu. Xavi, Iniesta og Pirlo tala allir um hann sem besta enska leikmanninn frá upphafi og það eru allt menn sem vita hvað þeir syngja,“ sagði Ferguson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert