Liðið tók sig saman í andlitinu

José Mourinho og lærisveinar hans hafa unnið þrjá leiki í ...
José Mourinho og lærisveinar hans hafa unnið þrjá leiki í röð. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, er ánægður með framfarirnar sem liðið hefur sýnt í undanförnum leikjum. United byrjaði tímabilið ekkert sérstaklega vel og tapaði meðal annars fyrir Brighton og Tottenham í upphafi leiktíðarinnar.

Þá fékk liðið á sig átta mörk í fyrstu þremur leikjum tímabilsins en liðið hefur nú unnið síðustu þrjá leiki sína í öllum keppnum og fengið á sig eitt mark í þessum þremur leikjum. „Við erum að leysa hlutina betur, varnarlega, en við gerðum í upphafi tímabilsins. Ég vil ekki benda á neinn einn leikmann eða leikmenn og kenna þeim um, knattspyrna er liðsíþrótt.“

„Við erum þéttari fyrir sem lið og við höfum bætt okkur saman á öllum sviðum leiksins. Þegar að þú vinnur leiki þá eykst sjálfstraustið innan liðsins. Það er góður stígandi í þessu hjá okkur og hlutirnir hafa gengið upp hjá liðinu. Það er engum sérstökum að þakka, það er allt liðið sem tók sig saman í andlitinu,“ sagði Mourinho.

mbl.is