Þarf líka að hugsa um sjálfan sig

Gary Cahill hefur ekkert komið við sögu hjá Chelsea á …
Gary Cahill hefur ekkert komið við sögu hjá Chelsea á þessari leiktíð. AFP

Gary Cahill gæti verið á förum frá enska knattspyrnufélaginu Chelsea en hann hefur ekki spilað mínútu fyrir félagið á þessari leiktíð. Cahill verður samningslaus næsta sumar og leikmaðurinn sjálfur segist vera tilbúinn að yfirgefa félagið í janúar, ef hlutirnir breytast ekki, en hann var fyrirliði liðsins á síðustu leiktíð.

„Ég vil ekki segja neitt sem ég gæti séð eftir en eins og staðan er í dag þá er ég á förum í janúar. Ég get ekki sætt mig við það að sitja á bekknum. Ferillinn er ekki það langur og ég þarf að spila reglulega. Ég ber mikla virðingu fyrir öllum hjá félaginu og stuðningsmönnum liðsins.“

„Stundum þarf maður hins vegar að hugsa um sjálfan sig og ferilinn. Ég hef verið stór hluti af þessu liði, undanfarin sjö ár og meðal annars verið fyrirliði. Ég er ekki vanur að vera í því hlutverki sem ég er í núna og það hefur tekið á. Ég veit að það er liðið sem skiptir mestu máli en stundum þarf maður að horfa til framtíðar líka,“ sagði Cahill.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert