„Tvö skref fram og eitt til baka“

Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég segi bara tvö skref fram og eitt til baka,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson í samtali við mbl.is en eins og fram kom á mbl.is fyrr í morgun meiddist Aron aftur á æfingu með Cardiff í vikunni og enn verður bið á því að hann snúi aftur inn á fótboltavöllinn.

„Ég er ágætis róli og er enn að byggja hnéð upp en þetta er búið að taka aðeins lengri tíma en við vonumst til. En ég er jákvæður á framhaldið. Ég tek þessu bara með jafnaðargeði og mæti til leiks þegar ég verð klár,“ sagði Aron Einar, sem ekkert hefur spilað síðan hann lék með íslenska landsliðinu í leiknum gegn Króötum í lokaumferð riðlakeppni heimsmeistaramótsins í Rússlandi í sumar.

Cardiff tekur á móti Englandsmeisturum Manchester City í ensku úrvalsdeildinni á morgun. Nýliðar Cardiff eru án sigurs í fyrstu fimm leikjunum í deildinni. Liðið hefur tvö stig í 17. sæti en meistararnir í Manchester City eru með 13 stig í 3. sæti deildarinnar.

Þegar liðin mættust í fyrsta skipti í úrvalsdeildinni árið 2013 vann Cardiff eftirminnilegan 3:2 sigur þar sem Aron Einar skoraði fyrsta mark sinna manna. Aron gerði í sumar nýjan eins árs samning við velska liðið en hann kom til félagsins frá Coventry árið 2011 og hefur verið lykilmaður Cardiff-liðsins frá því hann kom til þess.

mbl.is