Mitrovic bjargaði stigi fyrir Fulham

Aleksandar Mitrovic fagnar jöfnunarmarkinu.
Aleksandar Mitrovic fagnar jöfnunarmarkinu. AFP

Fulham og Watford skildu jöfn, 1:1, í hádegisleik 6. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu rétt í þessu.

Gestirnir frá Watford leituðust við að komast aftur á sigurbraut eftir að hafa tapað fyrsta leik sínum í síðustu umferð gegn Manchester United og fóru þeir heldur betur vel af stað í dag. Andre Gray kom þeim yfir með þriðja marki sínu á leiktíðinni strax á annarri mínútu eftir sendingu frá Will Hughes.

Heimamenn voru arfaslakir í fyrri hálfleik og hreinlega heppnir að vera ekki fleiri mörkum undir í hléinu en meira jafnræði var með liðunum í síðari hálfleik. Að lokum uppskar Fulham svo jöfnunarmark er Aleksandar Mitrovic skoraði sitt fimmta deildarmark eftir sendingu frá Luciano Vietto. Aðeins Eden Hazard hjá Chelsea hefur skorað jafn mikið og Mitrovic það sem af er tímabilsins.

Fulham er áfram í 15. sætinu með fimm stig en Watford er í 3. sæti með 13 stig. Það er þó líklegt að staða liðanna breytist eftir því sem líður á daginn en sjö leikir fara fram síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert