Arsenal hafði betur gegn Gylfa og félögum

Arsenal vann 2:0-heimasigur á Everton í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Everton var sterkari aðilinn þangað til Arsenal komst yfir á 56. mínútu, en eftir fyrra mark Arsenal voru heimamenn sterkari. 

Everton fékk nokkuð af færum í fyrri hálfleik, en Petr Cech stóð vaktina vel í marki Arsenal og var staðan í hálfleik markalaus. Everton byrjaði betur í síðari hálfleik en enn tókst illa að koma boltanum fram hjá Cech. 

Arsenal refsaði slæmri færanýtingu Everton-manna og Alexandre Lacazette skoraði með glæsilegu skoti í stöng og inn eftir sendingu Aaron Ramsey á 56. mínútu. Þremur mínútum síðar bætti Pierre-Emerick Aubameyang við marki, aftur eftir sendingu Ramsey.

Markið hefði ekki átt að standa þar sem Aybameyang var mjög augljóslega í rangstöðu, en það fór fram hjá dómurum leiksins og 2:0-sigur Arsenal staðreynd. Arsenal hefur unnið fimm síðustu leiki sína í öllum keppnum og er liðið í sjötta sæti deildarinnar með tólf stig. Everton er í 12. sæti með sex stig. 

Arsenal 2:0 Everton opna loka
90. mín. Leik lokið Tvö mörk Arsenal-manna í síðari hálfleik nægir til sigurs.
mbl.is