Derby sló United úr leik á Old Trafford

Leikmenn Derby höfðu ástæðu til að fagna í kvöld.
Leikmenn Derby höfðu ástæðu til að fagna í kvöld. AFP

Enska B-deildarliðið Derby gerði sér lítið fyrir og sló Manchester United úr leik í enska deildabikarnum í fótbolta á Old Trafford í kvöld. Staðan eftir venjulegan leiktíma var 2:2, en Derby vann 8:7 í vítakeppni. 

Juan Mata kom United yfir strax á þriðju mínútu og reyndist það eina mark fyrri hálfleiksins. Harry Wilson jafnaði á 59. mínútu með stórglæsilegu marki beint úr aukaspyrnu og átta mínútum síðar var Sergio Romero, markmanni Manchester United, vikið af velli með rautt spjald fyrir að verja með höndum utan teigs. 

Derby nýtti sér liðsmuninn og Jack Marriott skoraði á 85. mínútu. Tíu leikmenn United gáfust hins vegar ekki upp og Marouane Fellaini jafnaði á fimmtu mínútu uppbótartímans og tryggði Manchester-liðinu vítakeppni. Í vítakeppninni skoraði Derby úr öllum átta spyrnum sínum, en Phil Jones brenndi af áttundu spyrnu United, Scott Carson varði frá honum, og B-deildarliðið fór því áfram. 

Crystal Palace er sömuleiðis komið áfram eftir 3:0-sigur á WBA og Middlesbrough hafði betur gegn Preston í vítakeppni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert