Rafael Benítez kærður

Rafa Benitez gæti fengið sekt.
Rafa Benitez gæti fengið sekt. AFP

Enska knattspyrnusambandið hefur kært Rafael Benítez, knattspyrnustjóra Newcastle, fyrir ummæli sem hann lét falla um dómarann Andre Marriner fyrir leik liðsins við Crystal Palace á laugardaginn. 

Benítez sagði á fréttamannafundi að Andre Marriner væri líklegur til að hafa ummæli Wilfried Zaha, leikmanns Palace, á bak við eyrað á meðan hann dæmdi leikinn.

Zaha bað á dögunum um vernd frá dómurum eftir að illa var brotið á honum í leik gegn Huddersfield um þar síðustu helgi. „Það þarf sennilega að fótbrjóta mig til við fáum að sjá rauð spjöld,“ sagði Zaha og það fór illa í spænska stjórann. 

„Zaha er góður leikmaður en þetta voru furðuleg ummæli. Marriner mun hafa þau á bak við eyrað. Hann er reynslumikill dómari, en hann er ekki sá besti þegar kemur að rauðum spjöldum. Vonandi getur hann gleymt þessum ummælum og dæmt leikinn eðlilega,“ sagði Benítez. 

mbl.is