Verða að fá meira út úr Gylfa

Gylfi sækir að þýska varnarmanninum Shkodran Mustafi í leik Arsenal …
Gylfi sækir að þýska varnarmanninum Shkodran Mustafi í leik Arsenal og Everton um síðustu helgi. AFP

Everton verður að fá meira út úr Gylfa Þór Sigurðssyni segir sparkspekingurinn Jamie Carragher í viðtali við Sky Sports.

„Ef þú lítur á tölfræði hans er hann lúxusleikmaður en 45 milljónir punda er mikið fyrir Everton. Það verður að fá miklu meira út úr honum,“ segir Carragher en Everton greiddi Swansea 45 milljónir punda fyrir Gylfa þegar það fékk hann frá Swansea og þar með varð Gylfi dýrasti leikmaðurinn í sögu félagins.

„Við erum ekki að tala um ungan leikmann. Hann er 29 ára gamall. Hann á að vera gera hlutina núna. Það sem Everton hefur fengið út úr 45 milljóna punda leikmanninum er ekki nóg,“ segir Carragher en Everton hefur aðeins unnið einn af fyrstu sex leikjum sínum í deildinni og er með 6 stig í 12. sæti.

Gylfi hefur byrjað inni á í öllum leikjunum í deildinni og hefur skorað eitt mark og átt eina stoðsendingu og þá hefur hann skorað eitt í deildabikarnum.

Á síðustu leiktíð kom Gylfi við sögu í 27 leikjum með Everton í deildinni og skoraði í þeim 4 mörk og gaf 3 stoðsendingar.

Næsti leikur Everton er á laugardaginn en þá fær liðið nýliða Fulham í heimsókn á Goodison Park.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert