Sky hvetur fólk til að fylgjast með Gylfa

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði eitt af mörkum tímabilsins á Englandi …
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði eitt af mörkum tímabilsins á Englandi um síðustu helgi. AFP

Enski fréttamiðillinn Sky Sports hefur hvatt fólk til þess að fylgjast með Gylfa Þór Sigurðssyni, miðjumanni Everton og íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í landsleikjahléinu. Ísland mætir Frakklandi í vináttuleik á fimmtudaginn næsta í Guingamp í Frakklandi og svo Sviss í Þjóðadeildinni 15. október á Laugardalsvelli.

„Everton er loksins að ná því besta út úr Gylfa Sigurðssyni eftir að hann fékk frjálsræði til þess að spila í tíunni fyrir aftan framherjann en það er sama staða og hann spilar með íslenska landsliðinu. Gylfi skoraði sigurmarkið í 2:1-sigri Everton á Leicester í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi en markið var eitt af mörkum tímabilsins. Þetta var fjórða mark Gylfa fyrir félagið í fjórum leikjum.“

„Íslenska landsliðið vonast til þess að Gylfi haldi uppteknum hætti með landsliðinu enda þarf liðið á því að halda. Eftir að liðið gerði jafntefli við Argentínu á heimsmeistaramótinu í Rússlandi í sumar hefur liðið tapað fjórum leikjum í röð og aðeins tekist að skora eitt mark. Liðið tapaði 6:0 fyrir Sviss í Þjóðadeildinni og þar á eftir fylgdi 3:0-tap fyrir Belgum,“ segir í umfjöllun Sky Sports um íslenska landsliðsmanninn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert