Rüdiger tæpur fyrir leikinn gegn United

Antonio Rüdiger hefur farið mjög vel af stað með Chelsea ...
Antonio Rüdiger hefur farið mjög vel af stað með Chelsea á þessari leiktíð. AFP

Antonio Rüdiger, varnarmaður enska knattspyrnufélagsins Chelsea, er að glíma við meiðsli og þurfti hann að draga sig úr þýska landsliðshópnum sem mætir Hollandi og Frökkum í Þjóðadeildinni í landsleikjahléinu. 

Rüdiger hefur farið mjög vel af stað með Chelsea á þessari leiktíð og myndað öflugt miðvarðapar með David Luiz í hjarta varnarinnar. Chelsea er í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 20 stig, líkt og Manchester City og Liverpool.

Chelsea tekur á móti Manchester United í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar 20. október en óvíst er hvort Rüdiger verði orðinn heill fyrir þann tíma. Fari svo að Rüdiger verði ekki leikfær verður að teljast líklegt að César Azpilicueta muni leysa hann af hólmi í miðverðinum og að Victor Moses muni spila sem bakvörður.

mbl.is