Liðsfélagi Jóhanns Bergs ósáttur

Tom Heaton.
Tom Heaton. AFP

Markvörðurinn Tom Heaton, liðsfélagi Jóhanns Bergs Guðmundssonar hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Burnley, er ósáttur við stöðu sína hjá félaginu.

Hinn 32 ára gamli Heaton hefur jafnað sig eftir alvarleg meiðsli á öxl sem hélt honum frá keppni í um heilt ár. Vegna meiðsla hans og Nick Pope nældi Burnley í Joe Hart í sumar, en hann var lengi fyrsti kostur í markið hjá Englandi.

Hart hefur farið á kostum með liðinu það sem af er tímabili og Heaton er ekki ánægður með að fá ekki tækifæri til þess að sanna sig á ný.

„Það þarf engan geimvísindamann til þess að sjá að við munum aldrei geta fundið jafnvægi á milli okkar þriggja. Ég þarf að hafa augun opin þegar félagaskiptaglugginn opnar í janúar. Ég verð að spila reglulega,“ sagði Heaton og viðurkenndi að það hafi verið erfitt að sjá Hart koma inn og slá í gegn.

„Ég get ekki logið, það var erfitt. Auðvitað þekki ég hann vel og virði hann mjög, en ég var að búast við að fá að spila.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert