Guardian setur Gylfa í annað sætið

Gylfi Þór Sigurðsson er kominn með fjögur mörk í ensku …
Gylfi Þór Sigurðsson er kominn með fjögur mörk í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Everton, er sá leikmaður í ensku úrvalsdeildinni sem hefur bætt sig einna mest á þessari leiktíð samkvæmt enska miðlinum The Guardian. Gylfi er í öðru sæti The Guardian yfir þá leikmenn sem hafa bætt sig mest en Callum Wilson, sóknarmaður Bournemouth, er í fyrsta sæti listans.

Gylfi Þór kom til Everton, sumarið 2017, fyrir metfé en Everton borgaði Swansea 45 milljónir punda fyrir Íslendinginn sem hefur skorað 4 mörk og lagt upp eitt í átta leikjum í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð. „Gylfi Sigurðsson átti ekki sitt besta tímabil á síðustu leiktíð með Everton en hafa ber í huga að ákveðin niðursveifla var hjá félaginu á síðustu leiktíð. Hann er hins vegar að réttlæta verðmiðann á sér með frábærri frammistöðu í síðustu leikjum.“

„Bæði Ronald Koeman og Sam Allardyce notuðu Gylfa mikið á vinstri kantinum á síðustu leiktíð sem er ekki hann uppáhaldsstaða. Hann hefur blómstrað á þessari leiktíð, fyrir aftan framherjann, í sinni uppáhaldsstöðu. Marco Silva, þjálfari liðsins, og Richarlison hafa hjálpað Gylfa að þróa leik sinn og Íslendingurinn hefur átt helmingi fleiri lykilsendingar á þessari leiktíð að meðaltali, en hann átti í fyrra.“

„Þá hefur Gylfi skorað frábær mörk fyrir Everton á þessari leiktíð og hefur hann jafnað markaskorun sína á síðustu leiktíð, í fyrstu átta leikjum Everton á þessari leiktíð,“ segir í umfjöllun The Guardian um Íslendinginn knáa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert