Bakvörður Liverpool á leið til Arsenal?

Alberto Moreno verður samningslaus næsta sumar.
Alberto Moreno verður samningslaus næsta sumar. AFP

Alberto Moreno, vinstri bakvörður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, gæti fært sig um set á Englandi næsta sumar en hann verður samningslaus hjá Liverpool 30. júní. Liverpool hefur ekki áhuga á því að framlengja við bakvörðinn sem hefur lítið sem ekkert spilað síðan Andy Robertson gekk til liðs við Liverpool frá Hull City sumarið 2017.

Daily Mail greinir frá því í dag að Unai Emery, knattspyrnustjóri Arsenal, hafi mikinn áhuga á því að semja við Moreno. Þá eru Real Madrid og Barcelona einnig sögð áhugasöm um leikmanninn en hann ætti að geta valið úr nokkrum starfstilboðum þegar samningur hans rennur út, næsta sumar.

Moreno kom til Liverpool frá Sevilla á Spáni sumarið 2014 en það var Brendan Rodgers, fyrrverandi knattspyrnustjóri Liverpool, sem keypti hann til félagsins á sínum tíma. Moreno er uppalinn hjá Sevilla en hann er 26 ára gamall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert