Gæti allt eins talað við kaffivélina

Jürgen Klopp er langt frá því að vera aðdáandi Þjóðadeildar ...
Jürgen Klopp er langt frá því að vera aðdáandi Þjóðadeildar UEFA. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool á Englandi, fór ekki leynt með skoðun sína á Þjóðadeild UEFA á dögunum þar sem hann sagði keppnina þá tilgangslausustu í heiminum í dag. Klopp var mættur á blaðamannafund í morgun fyrir leik Liverpool og Huddersfield í ensku úrvalsdeildinni sem fram fer á morgun og hefur skoðun Klopp, á Þjóðadeildinni, lítið breyst.

„Það var gert mikið úr ummælum mínum um Þjóðadeild UEFA en skoðun mín hefur ekki breyst. Sumir segja að við liðin séu að fá betri leiki og sterkari andstæðinga en í venjulegum vináttuleikjum. Kannski er það rétt en þú sér boxkappann Anthony Joshua ekki berjast á hverju einasta kvöldi, það myndi aldrei ganga.“

„Í bandaríska fótboltanum þá fá leikmenn næstum því lengra sumarfrí en leiktíðin á Englandi er. Það er eins í körfuboltanum. Það eina sem fólk vill sjá í knattspyrnuheiminum er mikið magn af leikjum og ég skil það ekki. Hvort viljum við fara í óperuna á hverju einasta kvöldi eða einu sinni í öðrum hverjum mánuði? Við þurfum að fara varlega og passa að ofgera ekki leikmönnunum.“

„Það er ekki gott fyrir líkamann að spila svona marga leiki á ári og við þurfum að grípa inn í, fyrr eða seinna. Þjóðadeildin er frábær hugmynd, þannig séð, en hún myndi henta betur í öðrum íþróttum því það er ekkert pláss fyrir hana í knattspyrnuheiminum. Ég geri mér grein fyrir því að ég gæti allt eins rætt þetta við kaffivélina mína því það hafa fáir áhuga á því sem ég er að reyna segja en þetta er mín persónulega skoðun,“ sagði Klopp.

mbl.is