Yrði ánægður að ljúka ferlinum með Chelsea

Eden Hazard.
Eden Hazard. AFP

Eden Hazard segir að hann muni verða ánægður að enda feril sinn hjá Chelsea verði draumur hans um að ganga í raðir Real Madrid ekki að veruleika.

Hazard hefur farið á kostum með Chelsea á leiktíðinni en Belginn frábæri hefur skorað átta mörk í öllum keppnum með Lundúnaliðinu. Samningur hans við Chelsea rennur út eftir tvö ár en vitað er að  þaðer mikill áhugi hjá forráðamönnum að fá Hazard til liðs við sig og fylla skarðið sem Cristiano Ronaldo skildi eftir sig.

„Þegar ég var hjá Lille þá sagði ég alltaf ég vildi fara til Englands einn daginn og spila í minni draumadeild og svo einn daginn að prófa að fara til Spánar,“ segir Hazard í viðtali við Sky Sports en Hazard og félagar hans taka á móti Manchester United í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni í hádeginu á morgun.

„Nú er ég að verða 28 ára. Ég hef spilað í sjö ár með Chelsea þar sem ég hef unnið næstum allt saman. Svo ég get endað feril minn með Chelsea. Það er ekkert vandamál. Ég er ánægður hjá félaginu, með liðið og fjölskyldan er ánægð að vera hér. Ef ég fer ekki til Spánar þá er það ekkert vandamál. Ég elska stuðningsmenn Chelsea og ég held að þeir elski mig.“

mbl.is