Forráðamenn Chelsea eru hundfúlir

José Mourinho og Maurizio Sarri takast í hendur eftir leik.
José Mourinho og Maurizio Sarri takast í hendur eftir leik. AFP

Forráðamenn Chelsea eru sagðir hundóánægðir með atvik sem átti sér stað í 2:2 jafntefli Chelsea og Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu um helgina.

Chelsea jafnaði þá metin í uppbótartíma og Marco Ianni, aðstoðarmaður Maurizio Sarri, knattspyrnustjóra Chelsea, hljóp að José Mourinho og fagnaði innilega beint fyrir framan hann. Mourinho, núverandi stjóri United, er sem kunnugt er fyrrverandi stjóri Chelsea og var ekki ánægður með þessa ögrun.

Sky greinir frá því í morgun að forráðamenn Chelsea treysti Sarri fyrir því að finna hentuga refsingu fyrir aðstoðarmann sinn. Félagið líti atvikið hins vegar mjög alvarlegum augum og að svona nokkuð sé langt fyrir neðan virðingu Chelsea.

Mourinho greindi frá því eftir leik að Ianni hafi beðist afsökunar á athæfi sínu eftir leik.

mbl.is