Við lékum með hjartanu

Unai Emery, knattspyrnustjóri Arsenal.
Unai Emery, knattspyrnustjóri Arsenal. AFP

Unai Emery, knattspyrnustjóri Arsenal, sá sína menn vinna 10. leikinn í röð þegar liðið vann 3:1 sigur á móti Leicester í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

„Allir leikir eru erfiðir en þetta voru tveir ólíkir hálfleikir hjá okkur. Í fyrri hálfleik náðum við ekki að hafa stjórn á leiknum en það var allt annað uppi á teningnum í þeim síðari. Við byrjuðum þá að leika með hjartanu og gæðum.

Við þurfum stundum að spila með leikmann í „tíunni“ með Mesut Özil eða stundum Aaron Ramsey. Síðasti leikur var útileikur og við spiluðum með tvo framherja. Í kvöld var Mesut mjög góður,“ sagði Emery eftir leikinn en hann tók við stjórastarfinu af Arsene Wenger í sumar en Wenger heldur upp á 69 ára afmæli sitt í dag.

Spurður hvort Arsenal eigi möguleika á að vinna titilinn sagði Emery:

„Við tökum hvern leik sem mikla áskorun. Að halda áfram að vinna er erfitt og í kvöld var mjög mikilvægt að vinna því Leicester er nálægt okkur á stigatöflunni. Við hugsum bara um næsta leik,“ sagði Emery en hans menn sækja Sporting Lissabon heim í Evrópudeildinni á fimmtudaginn og leika svo gegn Crystal Palace á útivelli í deildinni um næstu helgi.

mbl.is