Barátta á hverjum einasta fermetra

Jürgen Klopp á fréttamannafundinum í dag.
Jürgen Klopp á fréttamannafundinum í dag. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir að hann eigi von á erfiðu og vel skipulögðu liði Rauðu stjörnunnar á Anfield annað kvöld þegar liðin mætast þar í Meistaradeild Evrópu.

Rauða stjarnan gerði 0:0 jafntefli við Napoli á heimavelli í fyrstu umferð riðlakeppninnar en steinlá síðan 6:1 fyrir París SG í Frakklandi. Liverpool vann París SG 3:2 á Anfield en tapaði 1:0 fyrir Napoli á Ítalíu.

„Þeir voru góðir á móti Napoli, sem átti reyndar fleiri færi, en þeir stóðu sig vel. Hvað varðar leikinn þeirra gegn PSG, þá ræður enginn við Neymar þegar hann hrekkur í gang, en þeir eru góðir í því að verjast og skapa sér marktækifæri,“ sagði Klopp á fréttamannafundi í dag.

„Þeir eru með mismunandi framherja til taks. Þeir eru stórir og fljótir, góðir fótboltamenn, og bakverðirnir þeirra eru fljótir og sókndjarfir. Rauða stjarnan er mjög vel skipulögð, þannig eru serbnesk lið ávallt. Þeir vita hvernig á að verjast og hika ekki við að láta finna fyrir sér. Við þurfum að vera klárir í baráttu á hverjum einasta fermetra vallarins,“ sagði Klopp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert