„Í öðru liðinu voru mikil gæði“

José Mourinho gengur niðurlútur af velli eftir tapið gegn Juventus …
José Mourinho gengur niðurlútur af velli eftir tapið gegn Juventus í kvöld. AFP

„Við lékum á móti einu af þeim liðum sem eru líklegust til að vinna Meistaradeildina,“ sagði José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United eftir 1:0 tap sinna manna gegn Ítalíumeisturum Juventus þegar liðin áttust við í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu á Old Trafford í kvöld.

United tapaði þar með sínum fyrsta leik í riðlakeppninni en Juventus er með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir og er komið langleiðina áfram í 16-liða úrslitin. United er í öðru sætinu með 4 stig, Valencia er með 2 stig í þriðja sætinu en Young Boys er á botninum með eitt stig. Þetta er í fyrsta sinn sem United skorar ekki mark í tveimur leikjum í röð á heimavelli í Meistaradeildinni frá því í nóvember 2012.

„Í öðru liðinu voru mikil gæði. Stundum horfa menn til Ronaldo eða Dybala en í toppliði þarftu að skoða leikmenn eins og Chiellini og Bonucci. Það er virkilega erfitt að eiga við lið eins og Juventus þegar það er með frumkvæðið. Mínir menn reyndu en sóknarleikurinn gekk ekki sem skyldi.

Þegar á leikinn leið bætti Juventus við auka manni í hjarta varnarinnar til viðbótar við þá mögnuðu Chiellini and Bonucci. Þetta var erfiður leikur fyrir okkur. Ég hélt að við gætum fengið eitthvað út úr leiknum en það var ekki mögulegt. Ég hef ekki yfir neinu að kvarta hvað varðar mína leikmenn og ég hef jákvæða tilfinningu fyrir viðleitni þeirra,“ sagði Mourinho.

Mourinho var spurður út í Romelu Lukaku sem hefur nú spilað átta leiki í röð án þess að skora.

„Það er ekki góður tími hjá Lukaku um þessar mundir. Ekki bara að hann skorar ekki mörk heldur gengur honum illa að ná takti við liðið. En hann er okkar framherji og við höfum trú á honum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert