Flett ofan af Manchester City

Lið Manchester City er gríðarlega sterkt en það er enskur …
Lið Manchester City er gríðarlega sterkt en það er enskur meistari og efst í ensku úrvalsdeildinni. AFP

Þýska blaðið Der Spiegel birtir í dag á netmiðli sínum, Spiegel Online, fyrsta hlutann af fjórum í greinaflokki sem nefnist "Manchester City exposed", eða "Flett ofan af Manchester City."

Þessi fyrsti kafli heitir „Farið á svig við reglur í milljónavís" og í inngangi hans segir: 

„Knattspyrnufélagið Manchester City hefur um árabil harðneitað að eigandi þess, sjeikinn af Abu Dhabi, hafi brotið fjárhagslegar reglur. En innanhúss tölvupóstar segja aðra sögu og sanna að samningar hafi verið áritaðir aftur í tímann, ólöglega hafi verið staðið að greiðslum fyrir auglýsingar og að stunduð hafi verið viðskipti undir slagorðinu: Við gerum það sem við viljum."

Spiegel Online segir að þessar fjórar greinar verði birtar á fjórum dögum, semsagt frá og með deginum í dag og til fimmtudags, en þetta er hluti af umfjöllun Der Spiegel um spillingu í knattspyrnuheiminum sem hófst á föstudag með fregnum af undirbúningi á stofnun Risadeildar Evrópu og fréttum af því að Gianni Infantino, núverandi forseti FIFA, hafi hjálpað eigendum Manchester City og París SG að komast hjá eðlilegum refsingum fyrir brot á fjárhagslegum háttvísireglum UEFA.

Í greininni sem birt er í dag er farið ítarlega yfir umsvif eigenda Manchester City, sem hafa með Mansour bin Zayed Al Nahyan, sjeikinn af Abu Dhabi, í fararbroddi gert félagið það fjársterkasta í heimi. Þar er m.a. sagt: 

„Frá því að sjeikinn af Abu Dhabi keypti Manchester City hefur félaginu tekist að svindla sér í fremstu röð í evrópskri knattspyrnu og stofna gríðarlega öflugt knattspyrnuheimsveldi, án þess að virða lög og reglur. Hin nýfengna frægð félagsins er byggð á lygum."

Farið er yfir hvernig félagið hafi komist framhjá reglum UEFA um fjárhagslega háttvísi, meðal annars með því að skilgreina svimandi háar greiðslur frá eigendunum sem auglýsingatekjur.

Kemur Ísland við sögu?

Neðst í greininni er meira að segja gefið til kynna að Ísland komi við sögu í næstu grein: 

„Þetta er mögnuð saga og inn í hana fléttast leynilegir margmilljóna styrktaraðilar breska ríkisstjórnarflokksins, íslenskur banki sem fór á hausinn í kreppunni og ótti stjornarmanna félagsins um að Manchester City gæti endað sem „óvinir fótboltans á heimsvísu." Þessi saga verður sögð í öðrum hluta."

Greinina í heild sinni má lesa hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert