Hefði líklega ekki átt að gera þetta

José Mourinho ögrar stuðnigsmönnum Juventus eftir leikinn.
José Mourinho ögrar stuðnigsmönnum Juventus eftir leikinn. AFP

José Mourinho knattspyrnustjóri Manchester United hrósaði frábærum útisigri gegn Ítalíumeisturum Juventus í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í gærkvöld.

Mourinho var í kastljósinu strax eftir lokaflautið en þá ögraði hann stuðningsmönnum Juventus með því að halda um eyrað á sér. Þetta uppátæki Mourinho féll í grýttan jarðveg hjá leikmönnum og stuðningsmönnum Juventus.

„Þeir móðguðu mig í 90 mínútur en ég kom hingað til að vinna mína vinnu og ekkert meira. Ég vildi bara vekja athygli á því að ég vildi heyra hærra í þeim. Ég hefði líklega ekki átt að gera þetta og með kaldan haus hefði ég ekki gert þetta. Ég veit að milljónir af stuðningsmönnum Inter eru ekki ánægðir með þetta en ég ber mikla virðingu fyrir Juventus, leikmönnum liðsins, þjálfara þess og þeim gæðum sem það hefur,“ sagði Mourinho eftir leikinn en hann stýrði liði Inter á árunum 2008 til 2010.

Eftir leik liðanna á Old Trafford ögraði Mourinho einnig stuðningsmönnum Juventus með því að lyfta þremur fingrum á loft til að minna þá á þrennuna sem Inter vann undir hans stjórn árið 2010.

„Þetta var frábær sigur fyrir okkur og jafnvel þótt við hefðum ekki náð að knýja fram sigur þá væri tilfinningin sú sama, að liðið hafi leikið vel frá fyrstu mínútu á móti algjöru gæðaliði,“ sagði Mourinho.

Annað strembið verkefni bíður lærisveina Mourinho en þeir sækja Englandsmeistara Manchester City heim á sunnudaginn.

mbl.is