Vildi ekki fagna sigurmarkinu

Paul Pogba.
Paul Pogba. AFP

Paul Pogba segist ekki hafa viljað fagna sigurmarki Manchester United í leiknum gegn Juventus í Meistaradeildinni í gærkvöld þar sem honum hafi fundist of skrýtið að gera það.

Pogba átti þátt í sigurmarkinu undir lok leiksins en skalli hans eftir aukaspyrnu Ashley Young hafði viðkomu í leikmanni Juventus á leiðinni inn í markið.

„Sigurinn var mikilvægur en stuðningsmenn Juventus tóku vel á móti mér. Ég fagnaði ekki þegar við komumst í 2:1, mér fannst of skrýtið að gera það. Ég sá margt fólk sem ég þekki vel. Við spiluðum á móti frábæru liði en við þurftum á þessum sigri að halda,“ sagði Pogba eftir leikinn en hann yfirgaf Juventus fyrir þremur árum og gekk í raðir Manchester United. Pogba hefur verið orðaður við endurkomu til ítölsku meistaranna.

„Viðbrögð stuðningsmanna Juventus hreyfðu við mér og ég hef saknað ítalska fótboltans. Það var frábært að koma aftur inn á þennan leikvang þar sem ég vann stóra titla,“ sagði Pogba.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert