Fyrirliðinn snýr aftur

Jordan Henderson hefur jafnað sig á meiðslum og er klár …
Jordan Henderson hefur jafnað sig á meiðslum og er klár í slaginn gegn Fulham. AFP

Jordan Henderson, fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Liverpool, er heill heilsu og klár í slaginn um helgina þegar Liverpool fær Fulham í heimsókn á sunnudaginn í 12. umferð ensku úrvalsdeildarinnar.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, staðfesti það á blaðamannafundi í morgun að Henderson væri klár í slaginn og þá er Naby Keita einnig tilbúinn en hann hefur verið að glíma við meiðsli í læri að undanförnu.

Samkvæmt Klopp eru allir miðjumenn liðsins heilir og tilbúnir í leikinn, að undanskildum Alex Oxlade-Chamberlain sem sleit krossband í leik gegn Roma í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu síðasta vor.

Liverpool tapaði óvænt fyrir Rauðu stjörnunni í C-riðli Meistaradeildar Evrópu í Serbíu í vikunni, 2:0, og þá gerði liðið 1:1-jafntefli við Arsenal í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi. Það er því pressa á lærisveinum Klopp að ná í þrjú stig gegn botnliði Fulham á sunnudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert