Jóhann mætir vængbrotnu Leicester-liði

Harry Maguire er frá vegna meiðsla.
Harry Maguire er frá vegna meiðsla. AFP

Jóhann Berg Guðmundsson og liðsfélagar hans í Burnley sækja Leicester City heim í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á morgun. Harry Maguire, varnarmaður Leicester, og James Maddison, miðjumaður Leicester, eru báðir frá vegna meiðsla en þetta staðfesti Claude Puel, stjóri Leicester City, á blaðamannafundi í vikunni.

Maguire hefur verið lykilmaður í vörn Leicester og en Maddison gekk til liðs við Leicester frá Norwich í sumar og hefur hann farið vel af stað með sínu nýja félagi. Maddison hefur skorað þrjú mörk og lagt upp önnur tvö í ellefu leikjum í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð og það er því slæmt fyrir Leicester að missa þá út fyrir leikinn mikilvæga gegn Burnley.

Leicester City er í tíunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir fyrstu ellefu umferðirnar með 16 stig en þetta verður fyrsti heimaleikur liðsins síðan eigandi félagsins, Vichai Srivaddhanaprabha, lét lífið í þyrluslysi í lok október. Burnley er í fimmtánda sæti deildarinnar með 8 stig en Jóhann Berg Guðmundsson hefur verið einn besti leikmaður liðsins á þessari leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert