Barist um Manchester-borg

Englandsmeistarar Manchester City hafa ekki tapað leik í úrvalsdeildinni í …
Englandsmeistarar Manchester City hafa ekki tapað leik í úrvalsdeildinni í vetur, skorað 33 mörk og fengið á sig fjögur. AFP

Þrjú efstu lið ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu verða öll á ferðinni í dag þegar leikið verður í 12. umferð. Stórleikur dagsins er viðureign erkifjendanna í Manchester City og Manchester United kl. 16.30.

City er á toppi deildarinnar fyrir leiki dagsins með 29 stig, tveimur stigum á undan Chelsea, Liverpool og Tottenham. United er með 20 stig í 8. sæti.

José Mourinho hefur í aðdraganda leiksins við City ítrekað að leikmenn sínir hafi ekki efni á því að lenda sífellt undir í leikjum, þó að þeim hafi tekist að vinna Juventus og Bournemouth eftir að hafa lent 1:0 undir, og þó að United hafi unnið síðasta leik við City 3:2 eftir að hafa lent 2:0 undir, í apríl síðastliðnum.

Kevin De Bruyne og markvörðurinn Claudio Bravo eru einu leikmennirnir sem ljóst er að City getur ekki notað í dag vegna meiðsla. Fyrirliðinn Vincent Kompany og bakvörðurinn Benjamin Mendy ættu að vera klárir í slaginn. Hjá United gæti Romelu Lukaku snúið aftur eftir meiðsli. Paul Pogba tók ekki þátt í æfingu liðsins á föstudag en það mun hafa verið vegna minni háttar eymsla. Bakvörðurinn Diogo Dalot hefur verið að glíma við meiðsli en fyrirliðinn Antonio Valencia er klár í slaginn á nýjan leik.

Fyrsti leikur dagsins er leikur Liverpool gegn botnliði Fulham kl. 12. Gylfi Þór Sigurðsson verður svo væntanlega í eldlínunni með Everton þegar liðið sækir Chelsea heim kl. 14.15. Arsenal  tekur svo á móti Wolves á sama tíma og Manchester-slagurinn fer fram.

Leikir dagsins:

12.00 Liverpool – Fulham
14.15 Chelsesa – Everton
16.30 Arsenal – Wolves
16.30 Man. City – Man. Utd

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert