Gylfi líklega úr leik eftir ljóta tæklingu

Marco Silva segir að Gylfi Þór Sigurðsson missi væntanlega af …
Marco Silva segir að Gylfi Þór Sigurðsson missi væntanlega af komandi landsleikjum. AFP

Marco Silva, knattspyrnustjóri Everton, segist ekki reikna með því að Gylfi Þór Sigurðsson geti spilað með íslenska landsliðinu í komandi landsleikjum eftir að hann meiddist í leiknum gegn Chelsea í dag í ensku úrvalsdeildinni.

Brasilíumaðurinn Jorginho tæklaði Gylfa illa í fyrri hálfleiknum og lá Gylfi nokkuð lengi eftir, á meðan hlúð var að honum. Eftir aðhlynningu sneri hann aftur inn á völlinn og lék fram á 75. mínútu en var þá skipt af velli. Enska götublaðið The Sun birti svo mynd af Gylfa eftir leik þar sem sjá má að hann er með hægri löppina í miklum umbúðum.

Silva var spurður út í annað atvik í leiknum, þegar upp úr sauð á milli Bernard og Antonio Rüdiger, og benti þá á tæklingu Jorginho:

„Ég vona að við verðum ekki án Gylfa í næstu leikjum eftir þessa tæklingu frá Jorginho. Núna tekur við landsleikjahlé en ég held að hann sé ekki í ástandi til þess að spila þá leiki,“ sagði Silva en Ísland mætir Belgíu í Þjóðadeildinni á fimmtudag og svo Katar í vináttulandsleik þremur dögum síðar.

Fyrr í dag varð ljóst að Jóhann Berg Guðmundsson yrði ekki með í landsleikjunum en Andri Rúnar Bjarnason hefur verið kallaður inn í hans stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert