Aron Einar undirstrikar hollustu sína

Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. Ljósmynd/Cardiff

Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu og leikmaður Cardiff í ensku úrvalsdeildinni, er í viðtali við heimasíðu félagsins í dag eftir 2:1 sigur liðsins gegn Brighton um helgina.

„Þetta var gríðarlega mikilvægt fyrir okkur, að ná þremur stigum fyrir landsleikjafrí. Strákarnir stóðu sig frábærlega að koma til baka eftir að hafa lent undir. Við vorum manni fleiri í langan tíma og þá var pressa á okkur að klára dæmið. En við þurftum að vera þolinmóðir og það skilaði sér,“ sagði Aron.

Hann fór fögrum orðum um knattspyrnustjórann Neil Warnock, sem var að stýra Cardiff í 100. sinn í leiknum gegn Brighton.

„Það er greinilegur munur síðan hann tók við og það sést á liðinu. Hann hefur staðið sig frábærlega og allir í Cardiff vita það. Hann vill að allir rói í sömu átt og strákarnir vilja gera það fyrir hann. Við þurfum að halda því áfram enda stórleikur gegn Everton eftir landsleikjafríið,“ sagði Aron.

Hann hefur komið sterkur inn í liðið hjá Cardiff eftir að hafa misst af fyrstu leikjum tímabilsins vegna meiðsla.

„Ég mun alltaf leggja mig 100% fram, sama hvort ég sé að renna út á samning eða ekki. Ég geri það fyrir Cardiff, fyrir strákana, stuðningsmennina og alla sem tengjast félaginu,“ sagði Aron Einar við heimasíðu Cardiff.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert