Sturridge neitar sök

Daniel Sturridge.
Daniel Sturridge. AFP

Daniel Sturridge, framherji Liverpool, neitar því að hafa brotið af sér en hann var í dag kærður af enska knattspyrnusambandinu fyrir að brjóta reglur þess er varða veðmál.

Eins og mbl.is greindi frá í dag er Sturridge sakaður um að hafa veðjað á knatt­spyrnu­leiki, en at­vinnu­mönn­um er með öllu óheim­ilt að gera það á meðan á ferl­in­um stend­ur. Skipt­ir þá engu hvar eða í hvaða deild er veðjað.

Tilkynning úr herbúðum Liverpool segir að Sturridge hafi verið mjög samvinnuþýður í þessu máli en heldur því jafnframt fram að hann hafi aldrei veðjað á fótboltaleiki. „Við ætlum hins vegar að leyfa þessu máli að hafa sinn farveg og ekki tjá okkur meira fyrr en því er lokið,“ segir talsmaður Liverpool.

Ljóst er að Sturridge gæti verið í mjög slæm­um mál­um ef hann verður fund­inn sek­ur, en skemmst er að minn­ast þess að Joey Bart­on fékk fyr­ir nokkr­um miss­er­um langt bann frá keppni vegna veðmála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert