Fundað vegna myndbandsdómgæslu

Mark Hughes, knattspyrnustjóri Southampton, er mikill talsmaður myndbandsdómgæslu á Englandi ...
Mark Hughes, knattspyrnustjóri Southampton, er mikill talsmaður myndbandsdómgæslu á Englandi eftir leiki helgarinnar. AFP

Forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu og forráðamenn félaganna í deildinni munu funda saman á fimmtudaginn næsta. Dómarasamtökin á Englandi munu halda kynningu á fundinum um myndbandsdómgæslu eða VAR og hvernig til hefur tekist með myndbandsdómgæsluna á Englandi, hingað til.

Hugsanlega verður kosið um það á fundinum, hvort innleiða eigi myndbandsdómgæslu í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Félögin í ensku úrvalsdeildinni kusu gegn myndbandsdómgæslu í apríl á þessu ári og því er ekki notast við VAR-tæknina í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð. Nokkur vafaatriði hafa komið í deildinni í ár og fer talsmönnum myndbandsdómgæslu á Englandi fjölgandi.

Ef tillagan verður felld á fimmtudaginn verður málið tekið upp á nýjan leik á næsta fundi deildarinnar sem fram fer í febrúar á næsta ári. Það virðist því aðeins vera tímaspursmál hvenær myndbandsdómgæslan festir sig í sessi í ensku úrvalsdeildinni.

mbl.is