Ólíklegt að United kaupi í janúar

José Mourinho fær ekki að versla leikmenn í janúar samkvæmt …
José Mourinho fær ekki að versla leikmenn í janúar samkvæmt Independent. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester United mun ekki rífa upp veskið í janúar til þess að kaupa nýja leikmenn en það er breski miðillinn Independent sem greinir frá þessu í dag. Independent greinir frá því að José Mourinho, knattspyrnustjóri liðsins, hafi reynt að funda með Ed Woodward, stjórnarformanni félagsins, til þess að ræða leikmannakaup í janúar en þeir hafa ekki ennþá  náð að setjast niður til þess að fara yfir janúargluggann.

Mourinho fékk ekki að kaupa alla þá leikmenn sem hann vildi fá í sumar en hann lagði mikla áherslu á að fá heimsklassa miðvörð í sumar. Það tókst hins vegar ekki og hefur varnarleikur liðsins á þessari leiktíð ekki heillað. United situr sem stendur í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 20 stig eftir fyrstu tólf umferðirnar og er 12 stigum frá toppliði Manchester City.

Þá hefur framtíð Mourinho hjá félaginu verið mikið í umræðunni upp á síðkastið en enskir miðlar greindu frá því í dag, að fari svo að United missi af Meistaradeildarsæti í vor verði Portúgalinn láta taka pokann sinn. Mourinho tók við stjórnartaumunum hjá Manchester United sumarið 2016 en liðið endaði í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert