Stefnir á fullkomnun

Alisson Becker hefur farið vel af stað með Liverpool í …
Alisson Becker hefur farið vel af stað með Liverpool í ensku úrvalsdeildinni. AFP

Alisson Becker, markmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, segir að hann sé stöðugt að reyna að bæta sig á milli stanganna. Alisson kom til Liverpool frá Roma í sumar en enska félagið borgaði tæplega 67 milljónir punda fyrir hann. Alisson segist ekki vera fullkominn markmaður en markmiðið sé að ná þeim stalli einn daginn.

„Liverpool borgaði háa upphæð fyrir mig og það eru margir sem búast við því að ég sé fullkominn markmaður. Það er ekki auðvelt en ég reyni og er að gera mitt besta. Það er of snemmt að segja um það, hvort ég sé búinn að standa mig vel, en markmiðið er að verða fullkominn markmaður fyrir Liverpool.“

„Ég er mjög ánægður með að hafa tekið þetta skref. Ég legg hart að mér til þess að hjálpa liðinu að ná markmiðum sínum. Það er mikill hraði á Englandi og þú þarft að halda einbeitingu í 90 mínútur í ensku úrvalsdeildinni. Við erum með frábæra varnarmenn og það minnkar álagið á mér en ég fæ eitt til tvö tækifæri í leik til þess að sýna hvað ég get,“ sagði Alisson í samtali við BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert