Ranieri snýr aftur til London

Claudio Ranieri.
Claudio Ranieri. AFP

Ítalinn Claudio Ranieri hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Fulham. Félagið greindi frá þessu í morgun. 

Ranieri gerir langtímasamning við Fulham og fær því væntanlega tækifæri til að byggja upp nýtt lið. Fulham er á botni ensku úrvalsdeildarinnar með 5 stig eftir fyrstu tólf leikina. 

Ranieri þekkir sig vel í vesturhluta London því hann stýrði Chelsea á fyrstu árum aldarinnar og lék Eiður Smári Guðjohnsen þá undir hans stjórn. Á Bretlandseyjum er Ranieri þó auðvitað þekktastur fyrir að hafa gert Leicester City að enskum meisturum árið 2016. 

Ranieri er 67 ára gamall og hefur komið víða við á löngum starfsferli. Síðast var hann hjá Nantes í Frakklandi, liði Kolbeins Sigþórssonar. 

Ranieri tekur við starfinu af Slavisa Jokanovic sem var látinn fara þar sem árangurinn þótti ekki viðunandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert