Mourinho velur mig ekki

Antonio Valencia.
Antonio Valencia. AFP

Antonio Valencia, fyrirliði Manchester United, segir að knattspyrnustjórinn José Mourinho hafi farið rangt með þegar hann sagði Valencia vera meiddan og málið sé að velji sig einfaldlega ekki í liðið.

„Ég hef ekki spilað að undanförnu en það er taktísk ákvörðun. Ég er ekki meiddur. Sá sem hefur leyst mig af hólmi (Ashley Young) hefur staðið sig vel og maður verður að virða það. Það eina sem ég get gert er að æfa og vera tilbúinn þegar hann þarf á mér að halda. Ég er rólegur og veit að ég fæ tækifæri á ný. Við Mourinho höfum alltaf átt góð samskipti," sagði Valencia í viðtali við Area Deportiva í Ekvador en hann er á heimaslóðum þessa dagana og skoraði annað marka Ekvador í 2:0 sigri á Perú í vináttulandsleik í gær.

Valencia hefur ekki spilað síðan Manchester United og spænska liðið Valencia gerðu 0:0 jafntefli í Meistaradeild Evrópu í byrjun október í Meistaradeild Evrópu. Eftir leikinn setti hann „læk“ við færslu á Instagram þar sem þess var krafist að Mourinho segði af sér og margir hafa viljað fullyrða að það sé ástæða þess að bakvörðurinn hefur ekki spilað undanfarnar vikur.

Þá gagnrýndi Mourinho Valencia fyrr í þessum mánuði eftir að sá síðarnefndi setti færslu á Instagram þar sem hann sýndi sjálfan sig á fullri ferð í þreksalnum. „Hann hefði átt að segja að hann væri að æfa einn því hann er meiddur og getur ekki æft með liðinu. Þetta leit út eins og hann væri á fullri ferð en þarna var enginn bolti og engir liðsfélagar. Hann er ekki tilbúinn," sagði Mourinho á þeirri stundu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert