Ætlum ekki að veikja úrvalsdeildina

Arsenal mun leika áfram í ensku úrvalsdeildinni, segja forráðamenn félagsins.
Arsenal mun leika áfram í ensku úrvalsdeildinni, segja forráðamenn félagsins. AFP

Forráðamenn Arsenal segja að þeir muni ekki gera neitt sem skaði ensku úrvalsdeildina og hún verði alltaf í forgangi hjá félaginu. Á dögunum var upplýst að Arsenal væri eitt þeirra stóru félaga í Evrópu sem hefðu rætt um stofnun „risadeildar“ sem myndi kljúfa sig frá deildum sinna landa og Meistaradeild Evrópu.

Þýski miðillinn Der Spiegel hefur að undanförnu birt ýmis leynileg skjöl varðandi evrópskan fótbolta og þar á meðal eru gögn sem talin eru sýna að stofnun slíkrar deildar sé á næsta leiti.

Framkvæmdastjóri Arsenal, Vinai Venkatesham, sagði við The Guardian í gærkvöld að Arsenal væri ekki á förum úr ensku úrvalsdeildinni.

„Arsenal er ekki og hefur aldrei verið áhugasamt um að taka þátt í nokkurri keppni sem myndi veikja ensku úrvalsdeildina. Hún er fremsta deildin í fremstu íþrótt í heimi og við viljum ekki gera neitt sem skemmir hana. Ég hef lesið þessar greinar um að Arsenal vilji losa sig úr henni en það myndum við aldrei gera. Við verðum hinsvegar að viðurkenna að við höfum tekið þátt í þessum umræðum - annað hefði verið óábyrgt af okkur. Við verðum að taka þátt í þeim - en það þýðir ekki að við styðjum þær," sagði Venkatesham.

Allir möguleikar voru ræddir

Samstarfsmaður hans, Raúl Sanllehí, sem er yfirmaður knattspyrnumála hjá Arsenal og kom þangað frá Barcelona, lagði áherslu á að Arsenal ætlaði sér að vera í fremstu röð í knattspyrnuheiminum og þyrfti því að taka þátt í öllum slíkum umræðum en sagði að viðræður innan ECA, samtaka stóru félaganna í Evrópu, snerust alveg eins um það að fá sem besta mögulega samninga við UEFA, eins og það að stofna einhverja risadeild.

„ECA ber ábyrgð gagnvart stærstu félögum Evrópu og varð því að kanna alla möguleika varðandi framtíðina. Einn þeirra hefði að sjálfsögðu verið stofnun risadeildar. Við ræddum þessi mál á meðan ég starfaði hjá Barcelona og Ivan Gazidis, sem þá var hjá Arsenal, var líka í þeim viðræðum. Það hvíldi engin leynd yfir þeim, ekki heldur gagnvart smærri félögunum í Evrópu," sagði Sanllehí við The Guardian.

„Við vissum að risadeildin gæti verið möguleiki og við skoðuðum hann. Við skoðuðum það á tvo vegu og þegar upp var staðið var útkoman sú besta sem möguleg var því við gerðum nýjan samning við UEFA sem verndar deildirnar í hverju aðildarlandi fyrir sig," sagði Sanllehí, og hafnaði því að Arsenal hefði skrifað undir eitthvert nýtt samkomulag.

Engin leyndarmál á ferðinni

„Eins og þetta var lagt fram hafði mátt halda að við hefðum verið að laumupúkast með eitthvað en það voru engin leyndarmál á ferðinni. Eitt skjal hefur komið fram þar sem nafn Arsenal  var, og á því skjali er líka nafn Barcelona. En þar eru engar undirskriftir og ég get fullyrt við ykkur að hvorki Arsenal né Barcelona hafa fengið það. Þetta er uppkast, væntanlega gert af einhverjum aðila frá einhverju félaganna sem að þessu koma. Þetta skjal er til, ég neita því ekki, en ég hef ekki séð það," sagði Sanllehí og kveðst efast um að stofnun risadeildar sé í pípunum.

„Ekki á næstunni allavega því við erum með samkomulag við UEFA, en maður veit aldrei hvað gerist í framtíðinni því hún skrifar sína eigin sögu. En ég sé engar róttækar breytingar fyrir mér í fyrirsjáanlegri framtíð," sagði yfirmaður knattspyrnumála hjá Arsenal við The Guardian.

mbl.is