Fengu ekki að gleyma Íslandstapinu

Dele Alli kastar sér í jörðina en leikmenn Íslands eru …
Dele Alli kastar sér í jörðina en leikmenn Íslands eru að hefja fagnaðarlætin þegar leikur Íslands og Englands í Nice er flautaður af. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Dele Alli, landsliðsmaður Englands í knattspyrnu, segir að það fyrsta sem Gareth Southgate hafi gert þegar hann tók við sem landsliðsþjálfari Englendinga hafi verið að láta leikmennina horfa aftur á ósigurinn gegn Íslandi, 1:2, í sextán liða úrslitum Evrópukeppninnar í Nice sumarið 2016.

„Við horfðum á stóran hluta leiksins og það var í fyrsta skipti sem ég hafði horft á hann, vegna þess að ég hafði reynt að telja sjálfum mér trú um að ég hefði ekki tekið þátt í þessum leik. Ég held að allir sem spiluðu leikinn hafi viljað grafa hann og gleyma honum, en Gareth sagði að til þess að komast yfir slíkan ósigur yrðum við að fara yfir hann á ný og finna út hvað hefði gerst," sagði Alli við The Guardian.

„Það var mjög erfitt að horfa á leikinn, allir voru mjög þögulir, en ég held að þetta hafi hjálpað okkur talsvert. Við erum ennþá ekki sérlega áhugasamir um að ræða þennan leik en við horfum ekki lengur til hans með sömu vondu tilfinningunum og áður," sagði Alli, sem var aðeins tvítugur og kvaðst hafa verið mjög vongóður um að enska liðið myndi ná langt á EM í Frakklandi.

Gylfi Þór Sigurðsson, Dele Alli og Kári Árnason í leiknum …
Gylfi Þór Sigurðsson, Dele Alli og Kári Árnason í leiknum í Nice. Skapti Hallgrímsson

Vildi bara skríða í felur

„Fyrir þó nokkra af okkur var þetta fyrsta stórmótið með enska landsliðinu og maður fór þangað með miklar væntingar, fullur sjálfstrausts, og svo gerðist eitthvað sem maður bjóst alls ekki við. Ég var gríðarlega stoltur en eftir leikinn vildi ég bara skríða í felur að eilífu. Svo gerist það næst að við komumst í undanúrslitin á heimsmeistaramótinu," sagði Alli en þangað komst enska liðið óvænt í Rússlandi í sumar.

Alli segir að enska liðið hafi ekki verið nægilega vel undirbúið fyrir leikinn gegn Íslandi.

„Þegar Íslendingar komust yfir í leiknum þá frusum við. Við bjuggumst ekki við þessu og við áttum ekkert svar. Það var eins og allir spyrðu sömu spurningar - hvað gerum við nú? Og enginn vissi það. Mér hafði liðið í keppninni eins og við gætum unnið alla andstæðinga en þegar það kom á daginn að við gátum ekki unnið Ísland þá áttuðum við okkur á því að við áttum margt ólært. Okkur vantaði plan B, en fyrst og fremst hefðum við átt að anda djúpt, einbeita okkur að því að spila okkar leik og ná aftur stjórn á leiknum.“

Þetta lið fer ekki aftur á taugum

„Ég tel að við séum betur undirbúnir fyrir það núna, við erum orðnir sterkari andlega. Þó það geti verið hættulegt að segja það fyrirfram, þá finnst mér vera önnur og betri tilfinning í liðinu í dag. Maður veit aldrei hvað gerist næst í fótboltaleik, svo þú verður að vera klár í hvað sem er. Við höfum búið okkur vel undir það að lenda í svona stöðu aftur og halda ró okkar. Við getum hvenær sem er lent undir í leik, en ég tel að þetta lið fari ekki aftur á taugum," sagði Dele Alli við The Guardian.

Englendingar mæta Króötum á Wembley í dag í lokaleik 4. riðils Þjóðadeildar UEFA. Það er tvöfaldur úrslitaleikur. Sigurliðið vinnur riðilinn og kemst í undanúrslit keppninnar en tapliðið verður neðst og fellur í B-deildina. Ef leikurinn endar með markalausu jafntefli vinna Spánverjar riðilinn og Króatar falla en ef hann endar með jafntefli þar sem skoruð verða mörk falla Englendingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert