Rashford haltraði af velli

Marcus Rashford fór meiddur af velli gegn Króatíu í Þjóðadeildinni …
Marcus Rashford fór meiddur af velli gegn Króatíu í Þjóðadeildinni í dag. AFP

Sóknarmaðurinn Marcus Rashford haltraði af velli í 2:1-sigri enska liðsins gegn Króatíu í 3. riðli A-deildar Þjóðadeildar UEFA í knattspyrnu á Wembley í dag. Rashford, sem er samningsbundinn Manchester United í ensku úrvalsdeildinni, hefur verið að spila vel fyrir félagslið sitt að undanförnu.

Rashford fór meiddur af velli á 73. mínútu og gekk beint til búningsherbergja. Enskir fjölmiðlar greina frá því að Rashford sé tognaður aftan í læri en meiðslin hafa ekki enn þá verið staðfest. Rashford hefur komið við sögu í níu leikjum með United í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð þar sem hann hefur skorað tvö mörk og lagt upp eitt.

Manchester United er í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir fyrstu tólf umferðir deildarinnar með 20 stig, 12 stigum minna en topplið Manchester City. United fær Crystal Palace í heimsókn í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn næsta og er óvíst hvort Rashford geti tekið þátt í leiknum vegna meiðsla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert