Gylfi í kapphlaupi við tímann

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. AFP

Ekki er víst að það verði neinn Íslendingaslagur þegar Everton tekur á móti Cardiff í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á laugardaginn.

Gylfi Þór Sigurðsson meiddist á ökklanum í markalausu jafntefli á móti Chelsea fyrir tíu dögum og hefur verið í meðferð hjá læknateymi Everton-liðsins. Ekki hefur verið gefin upp dagsetning hvenær Gylfi verður orðinn leikfær á nýjan leik en hann er í kapphlaupi við tímann að ná sér góðum fyrir leikinn á laugardaginn.

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson verður hins vegar klár í slaginn en Aron lék allan tímann í viðureigninni við Belga í Þjóðadeildinni í síðustu viku en hvíldi lúin bein í vináttuleiknum á móti Katar í gærkvöld.

mbl.is