Zaha klár í slaginn gegn gamla liði sínu

Wilfried Zaha.
Wilfried Zaha. AFP

Wilfried Zaha sóknarmaður Crystal Palace snýr aftur á sinn gamla heimavöll þegar Palace sækir Manchester United heim í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á laugardaginn.

Zaha hefur glímt við meiðsli og missti af leik sinna manna gegn Tottenham fyrir landsleikjahléið og hann dró sig út úr verkefnum með landsliði Fílabeinsstrandarinnar. Hann er hins vegar allur að braggast og reiknað er með því að hann verði klár í slaginn á laugardaginn.

Zaha gekk í raðir Manchester United frá Crystal Palace í janúar 2013 en var í láni hjá Palace út leiktíðina. Hann lék sinn fyrsta leik með United í september 2013. Zaha náði aldrei fótfestu á Old Trafford og var lánaður til Cardiff og hann sneri svo aftur til Crystal Palace sem keypti hann 2015.

Zaha hefur verið algjör lykilmaður í liði Crystal Palace, sem hefur ekki unnið leik án hans síðan það lagði Sunderland fyrir tveimur árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert