Hafa hjálpað Gylfa til að blómstra

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. AFP

Leon Osman, einn af leikjahæstu leikmönnum Everton frá upphafi, segir að þeir leikmenn sem Everton fékk til liðs við sig í sumar hafi hjálpað Gylfa Þór Sigurðssyni til að blómstra með liðinu á leiktíðinni.

Brasilísku sóknarmennirnir Richarlison og Bernard komu til Everton í sumar ásamt portúgalska miðjumanninum Andre Gomez og þeir hafa fallið vel inn í liðið með Gylfa Þór sem hefur farið á kostum í uppáhaldsstöðu sinni, í „holunni“ svokölluðu.

Gylfi hefur skorað 5 mörk og gefið 2 stoðsendingar og er einn af fimm leikmönnum úrvalsdeildarinnar sem hefur skapað 30 færi eða fleiri en Gylfi hefur búið til 31 færi fyrir samherja sína. Þá er Gylfi sá leikmaður sem hleypur mest í Everton-liðinu eða 11,75 km að meðaltali í leik.

„Þú verður spenntur þegar þú horfir á okkur um þessar mundir. Við erum að búa til færi til að skora og ég stend upp úr sæti mínu þegar ég horfi á okkur. Ég nýt þess,“ segir Osman á vef Everton en hann lék samtals 433 leiki með Everton þau 13 ár sem hann lék með liðinu.

„Gylfi er frábær leikmaður. Ég er mjög ánægður að hann sé að spila svona vel og er fullur af sjálfstrausti. Þegar þú er tegund af leikmanni eins og hann þá þarftu leikmenn í kringum þig sem geta fengið það besta út úr þér. Richarlison og Theo Walcott gefa honum möguleika á að senda boltann yfir vörnina og þá leita Bernard og Gomez mikið til Gylfa og koma boltanum á hann,“ segir Osman á vef Everton.

Everton tekur á móti Aroni Einari Gunnarssyni og félögum hans í Cardiff á laugardaginn en ekki er víst að Gylfi verði með í þeim leik. Gylfi er að jafna sig eftir ökklameiðsli sem hann varð fyrir í leiknum á móti Chelsea fyrir landsleikjahléið og er í kapphlaupi við tímann að ná sér góðum fyrir leikinn gegn Cardiff.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert