Peysan frá Patró virkaði vel á Gylfa

Gestur Rafnsson og Gylfi Þór Sigurðsson kampakátir eftir sigur Everton …
Gestur Rafnsson og Gylfi Þór Sigurðsson kampakátir eftir sigur Everton á Cardiff. Ljósmynd/Aðsend

Gylfi Þór Sigurðsson átti sér afar dygga stuðningsmenn í stúkunni á Goodison Park um helgina þar sem hann skoraði sigurmarkið í 1:0-sigri á Cardiff, liði Arons Einars Gunnarssonar. Gylfi var sérstaklega ánægður með klæðnað eins í hópnum.

Í hópi liðsmanna Everton-klúbbsins á Íslandi, sem staddir voru á leiknum, voru hjónin Gestur Rafnsson og Ólöf Guðrún Þórðardóttir frá Patreksfirði. Óhætt er að segja að föt Gests hafi vakið athygli, bæði á Goodison Park og á ferð hópsins um Liverpool-borg, en hann klæddist glæsilegri lopapeysu og húfu sem Ólöf Guðrún prjónaði sérstaklega fyrir ferðina.

„Þetta byrjar þannig að ég býð frúnni á leik með mínu liði sem ég hef stutt frá 1983. Ég hafði aldrei farið á heimaleik með liðinu og hún segist ætla að gera húfu á mig í staðinn. Hún prjónar mikið og á lítið fyrirtæki sem heitir Hlýtt á kroppinn. Hún var ekki lengi að prjóna húfuna og fær stundum kreisí hugmyndir og segir; hvað ef ég prjóna nú peysu á þig? Þar með hófst vinna við að telja út og ákveða hvað ætti að standa á peysunni,“ segir Gestur við mbl.is.

Peysan og húfan voru kirfilega merkt Gylfa sem kom og hitti hópinn eftir leik: „Eftir leik var ákveðið að bíða eftir Gylfa. Hann var alveg til í að tala við okkur. Þegar Gylfi kemur til okkar segir hann; Ég var búinn að fá mynd af þessari peysu, og bætir við að hún sé mjög flott. Síðan voru teknar nokkrar myndir,“ segir Gestur.

Eins og sjá má voru peysan og húfan kirfilega merkt …
Eins og sjá má voru peysan og húfan kirfilega merkt Gylfa og í stíl við Everton-búninginn. Ljósmynd/Aðsend

Goðsögn hæstánægð með peysuna

Eins og fyrr segir vakti klæðnaður Gests athygli en Liverpool-borg er bæði rauð og blá og því var mismunandi hvernig fólk tók honum.

„Jú, fólk tók eftir peysunni víða og maður fékk annaðhvort skot eða hrós frá fólki, og þegar við vorum komin að vellinum þá voru margir sem hrósuðu peysunni. Við vorum í 28 manna hóp frá Gamanferðum og 20 af þessum hópi voru saman í stúku og höfðu aðgang að „The people‘s club“ þar sem er boðið er upp á hlaðborð fyrir leik og viðtöl við fólk. Þar fóru meðal annars formaður og ritari klúbbsins á Íslandi í viðtal enda þótti mjög merkilegt að þarna væri staddur 28 manna hópur frá Íslandi. Eftir leikinn kom Nigel Martin, fyrrverandi markvörður Everton, og hann svaraði nokkrum spurningum og síðan var myndataka. Nigel fannst peysan alveg æði og sagði að hún væri alla vega 500 punda virði!“ segir Gestur léttur í bragði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert