Tottenham rifjar upp sigurmark Gylfa

Gylfi Þór Sigurðsson leikur í búningi Everton þessa dagana en …
Gylfi Þór Sigurðsson leikur í búningi Everton þessa dagana en hann var hjá Tottenham árin 2012-2014. AFP

Tottenham tekur á móti Southampton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Af því tilefni er sigurmark Gylfa Þórs Sigurðssonar úr rimmu liðanna árið 2014 rifjað upp á samfélagsmiðlum Tottenham.

Gylfi skoraði sigurmark í uppbótartíma þegar Tottenham vann Southampton 3:2 í mars 2014 og hélt með því lífi í vonum um Meistaradeildarsæti þá leiktíðina. Tottenham er einmitt í harðri baráttu um sess meðal fjögurra efstu liðanna í úrvalsdeildinni nú, sæti sem gefa þátttökurétt í Meistaradeildinni á næstu leiktíð, en liðið er í 5. sæti með 30 stig fyrir leiki kvöldsins.

Stuðningsmenn Tottenham tjá sig um Gylfa á Facebook-síðu liðsins og virðast harma þá ákvörðun að Gylfi skyldi seldur frá félaginu á sínum tíma, eins og sjá má með því að smella á hlekk hér að neðan. „Ég sakna Sigurdsson. Klassaleikmaður og harðduglegur,“ skrifar einn. „Við hefðum aldrei átt að láta Sigurdsson fara,“ bætir annar við. Gylfi verður væntanlega í eldlínunni með Everton í kvöld en þá mætir liðið Newcastle.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert