Grétar Rafn að taka við starfi hjá Everton

Grétar Rafn Steinsson.
Grétar Rafn Steinsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Grétar Rafn Steinsson, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu sem hefur gegnt starfi yfirmanns knattspyrnumála hjá enska C-deildarliðinu Fleetwood Town, er að taka við nýju starfi hjá Everton.

Fram kemur hjá netmiðlinum Training Ground Guru að Grétar Rafn sé að taka við starfi yfirnjósnara hjá Everton á meginlandi Evrópu. Hann lauk störfum hjá Fleetwood Town í gær og verður ráðning hans opinberuð hjá Everton á morgun en sem kunnugt er leikur Gylfi Þór Sigurðsson með enska úrvalsdeildarliðinu.

Grétar Rafn gerði nýlega nýjan fimm ára samning við Fleetwood Town. Hann er 36 ára gamall sem lék 46 leiki með íslenska landsliðinu og skoraði í þeim 4 mörk. Hann lék sem atvinnumaður með Young Boys í Sviss, hollenska liðinu AZ Alkmaar, Bolton á Englandi og Kayserispor í Tyrklandi en hann lagði skóna á hilluna fyrir fimm árum.

mbl.is